13.6.2012 19:52:00
Rúnar Helgi hlýtur þýðingarverðlaun Menntaráðs Reykjavíkur
Miðvikudaginn 18. apríl sl. var tilkynnt við hátíðlega athöfn í Höfða að Rúnar Helgi Vignisson hlyti þýðingarverðlaun Menntaráðs Reykjavíkurborgar fyrir bestu þýddu barnabókina 2006. Um er að ræða bókina Sólvæng eftir Kanadamanninn Kenneth Oppel sem Græna húsið gaf út í fyrra. Í umsögn dómnefndar, sem Guðrún Pálína Ólafsdóttir var í forsvari fyrir, segir:
,,Á meðan flestar leðurblökur liggja í vetrardvala heldur Skuggi, leðurblaka af silfurvængjategund, ásamt fríðu föruneyti í ævintýrlega leit að föður hans. Á vegi þeirra verður forvitnileg glerbygging sem Skuggi leiðir hópinn inn í, enda þess fullviss að faðir hans sé þar. Staðurinn virðist við fyrstu sýn vera Paradís en hins vegar kemur fljótlega í ljós að ekki er allt með felldu.
Hér er um að ræða mannvirki þar sem tilraunir með notkun leðurblaka í hertilgangi fara fram. Skugga og félögum tekst þó að komast undan mönnunum og spennan stigmagnast. Fram undan er æsilegt uppgjör silfurvængja og annarra leðurblakna við svokallaðar kjötætuleðurblökur sem halda föður Skugga og fjölda annarra dýra föngnum. Til þess að sigra í lokauppgjörinu þurfa leðurblökur, uglur og rottur sem eru fornir óvinir að standa saman sem ein heild. Sagan er ákaflega vel þýdd af Rúnari Helga Vignissyni, en lipur þýðingin ásamt afburða söguþræði heldur lesandanum límdum við bókina frá upphafi til enda."
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|