17.7.2012 16:16:00
Krefjandi starf - sagði Ellen Ingvadóttir
Sem túlkur hefur Ellen Ingvadóttir komið víða við. Hún hefur túlkað fyrir dómi, í fangelsum, við yfirheyrslur, í skilanefndum, á ráðstefnum og síðast en ekki síst fyrir forsætisráðherra. Ellen hélt tveggja tíma fyrirlestur um starf sitt á vegum Bandalags þýðenda og túlka á dögunum og ræddi þar um eitt og annað sem að því lýtur.
Það er ljóst að starf túlksins er bæði fjölbreytt og vandasamt. Hann þarf að miðla af nákvæmni og má ekki hafa álit á einu eða neinu. Hann má ekki dramatísera og hann má ekki vera óeðlilega flatur í framsetningu. Ekki á hann heldur að láta bera óhóflega á sér við störf, enda er hann ekki aðalmaðurinn. Og ef hann vill starfa fyrir lögreglu verður hann að halda trúnað og reyndar er trúnaðarskyldan einn meginþátt þeirra skyldna sem lagðar eru á herðar túlks, sama fyrir hvern unnið er.
Ellen lýsti starfsaðstæðum túlka hér á landi og af máli hennar má ljóst vera að aðstæður eru oft ófullkomnar. Óvíða eru til dæmis sérhannaðir túlkaklefar. Sums staðar eru litlir og loftlausir klefar sem ekki er spennandi að verja heilu dögunum í. Þá skortir víða nauðsynlegan tækjabúnað, t.d. í dómsölum
Ellen fjallaði líka um mismunandi aðferðir við túlkun, s.s. lotutúlkun þar sem mælandi og túlkur skiptast á að tala, og samhliða túlkun þar sem túlkurinn þýðir jafnóðum eins og algengt er á alþjóðlegum ráðstefnum. Þá gildir að geta einbeitt sér og vera fljótur að hugsa.
Ellen talaði um að traust þyrfti að ríkja milli túlks og skjólstæðings. Þess vegna væri vont ef túlk ræki í vörðurnar, þá setti hann ofan, og það versta sem hún gæti hugsað sér væri að gera afdrifarík mistök. Til að minnka líkurnar á því undirbýr hún sig af kostgæfni áður en hún fer í túlkun. Það gerir hún með því að renna yfir orðalista sem hún hefur komið sér upp. Þannig matar hún undirvitundina sem hún segir að skili sér ævinlega þegar á hólminn sé komið, þá komi orðin um leið og á þurfi að halda.
Að sögn Ellenar er túlkun krefjandi starf. Þannig sé túlkur iðulega örþreyttur eftir heilan dag við ráðstefnutúlkun, slík orka fari í túlkunina. Þess vegna þurfi túlkur að gæta þess að mæta vel hvíldur til starfa, já og mæta tímanlega, sérstaklega ef ganga þarf úr skugga um að tæki séu í lagi.
Þó að starfið sé krefjandi og sjálfsagt ekki á allra færi sagði Ellen það geysilega skemmilegt. „Mér líður rosalega vel að lokinni vel heppnaðri túlkun,“ sagði hún og kveikti örugglega í mörgum með ástríðu sinni fyrir starfinu og heillandi sögum.
Þess má geta að ef Ísland gengur í Evrópusambandið stóreykst þörfin fyrir túlka. Til að svara þeirri þörf er í ráði að bjóða nám í túlkun við Háskóla Íslands – ef fjárveiting fæst.
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|