16.2.2015 12:32:00
Varðandi ummæli ráðherra um EES-gerðir
Stjórn Bandalags þýðenda og túlka furðar sig á ummælum umhverfisráðherra í Fréttablaðinu 16. febrúar, að nota eigi „mildara orðalag við þýðingu Evróputilskipana“ og yfirlýstar efasemdir ráðherra um að ekki séu tekin inn „réttu íslensku orðin [...] oft og tíðum“. Með þessum ummælum er vegið að heiðri og fagmennsku þeirra þýðenda sem starfa fyrir Þýðingamiðstöð Utanríkisráðuneytisins, jafnt fastráðinna starfsmanna sem verktaka.
Þýðing á tilskipunum, reglugerðum og reyndar öllum texta sem hefur lagalegt gildi er gríðarleg nákvæmnisvinna þar sem frjálsleg túlkun á ekkert erindi. Stjórn ÞOT bendir á að hugtakanotkun og málfar í EES-gerðum byggist ekki á geðþóttaákvörðunum þýðanda eða annarra hverju sinni heldur hugtakagrunni sem hefur verið byggður upp af miklum metnaði í nokkra áratugi og kostað þrotlausa vinnu. Gæðaeftirlit Þýðingamiðstöðvarinnar er rómað og þeir þýðendur sem hafa sérhæft sig í þessum vandasömu þýðingum eiga heiður skilið en ekki hnútur frá ráðherra í ríkisstjórn Íslands.
Stjórn Bandalags þýðenda og túlka harmar það vanmat á störfum þýðenda sem kemur fram í orðum ráðherrans og lýsir yfir fullum stuðningi við Þýðingamiðstöð Utanríkisráðuneytisins og starfsfólk hennar.
– Stjórn Bandalags þýðenda og túlka
Til baka
Prentvæn útgáfa | Senda á Facebook | RSS
|
|