3.12.2012 01:01:17
Á fullveldisdaginn 1. desember var tilkynnt í áttunda sinn um
tilnefningar Bandalags þýðenda og túlka til Íslensku
þýðingaverðlaunanna. Fimm nýjar þýðingar hlutu tilnefningu en dómnefnd
var skipuð af þeim Hermanni Stefánssyni, Móheiði Hlíf Geirlaugsdóttur og
Jórunni Sigurðardóttur, sem var jafnframt formaður nefndarinnar. Í meginmáli fréttarinnar má
sjá hvaða bækur eru tilnefndar árið 2012 og rökstuðning dómnefndar
fyrir valinu. |
|
12.11.2012 12:31:46
Eins
og venja er í nóvember dekkar Bandalag þýðenda og túlka upp hlaðborð
með nýútkomnum bókaþýðingum og fer dagskráin að þessu sinni fram á
Súfistanum á efri hæð Bókabúðar Máls og menningar að Laugavegi 18,
miðvikudaginn 14. nóvember kl. 20. Á hlaðborðinu gætir ýmissa
áhugaverðra grasa og mæta þýðendur verkanna sjálfir til leiks og lesa
upp úr bókunum |
|
9.11.2012 14:27:19
Áhugavert málþing um íslensku í tölvuheimum verður haldið þriðjudaginn
13. nóvember 2012 kl. 15–16.15 í bókasal Þjóðmenningarhússins við
Hverfisgötu. Katrín Jakobsdóttir ávarpar málþingið og erindi flytja Guðrún Kvaran, Eiríkur Rögnvaldsson, Kristinn Halldór Einarsson, Jón Guðnason, Trausti Kristjánsson og Haraldur Bernharðsson.
|
|
28.9.2012 14:34:54
Á hverju ári heldur Bandalag þýðenda og túlka (ÞOT) alþjóðadag þýðenda
hátíðlegan með málþingi sem fjallar um einhvern þátt þýðinga. Í ár urðu
þýðingar á barnabókum fyrir valinu og þrír mætir barnabókavinir fengnir
til að halda erindi. Dagskráin verður á efri hæðinni í Iðnó kl. 15-17
sunnudaginn 30. september og erindi flytja Þorleifur Hauksson, Brynhildur Björnsdóttir og Þórarinn Leifsson.
|
|
25.9.2012 14:14:28
Í tilefni af Evrópska tungumáladeginum efna Stofnun Vigdísar
Finnbogadóttur, Samtök tungumálakennara á Íslandi og Máltæknisetrið til
dagskrár miðvikudaginn 26.september klukkan 16.00-17.15.
Yfirskriftin
er Tungumál, tækni og tækifæri og þar verður fjallað um hvernig ný
þekking, tækni og leiðir geta nýst í þágu tungumálanáms og samskipta á
erlendum tungumálum. Þá verður kynnt alþjóðleg skýrsla um
framtíðarhorfur 30 Evrópumála í stafrænum heimi. Auk þess sem greint
verður frá stöðu erlendra tungumála í nýrri námskrá grunnskóla. Í
dagskránni verða flutt sex erindi um ofangreind efni auk þess sem
nemendur Fellaskóla munu ávarpa dagskrána með kveðju frá sínum
heimalöndum.
|
|
24.9.2012 16:56:28
Bandalag þýðenda og túlka (ÞOT) var stofnað á alþjóðadegi þýðenda, 30.
september, sem kenndur er við heilagan Híerónýmus, biblíuþýðandann
fræga. Allt frá stofnun félagsins 2004 hefur þótt við hæfi að halda
daginn hátíðlegan með málþingi þar sem sjónum er sérstaklega beint að
einni grein þýðinga og í ár urðu þýðingar á barnabókum fyrir valinu.
Þrír unnendur barnabóka, þau Brynhildur Björnsdóttir, Þorleifur Hauksson
og Þórarinn Leifsson, ætla að halda stutt erindi um efnið og vonandi
skapast góðar umræður á eftir. |
|
21.9.2012 16:09:09
Ríkiskaup, fyrir hönd Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins (ÞM),
auglýsir útboð vegna þýðinga á löggjöf ESB. Um er að ræða fjölbreytta
sérfræðitexta á ýmsum sviðum sem verða að mestu þýddir úr ensku á
íslensku, ásamt tengdum verkum. Jafnt einstaklingum sem
fyrirtækjum er boðið að leggja inn tilboð. Gerð er krafa um
háskólamenntun og/eða löggildingu í skjalaþýðingum auk þess sem gerð er
krafa um reynslu af textagerð. Bjóðendur verða valdir til þátttöku á
grundvelli ferilskrár og tilboðs. Umfang og fjöldi verkefna til
einstakra þýðenda ræðst af niðurstöðu gæðamats ÞM. |
|
20.9.2012 11:27:00
Bókmenntasjóður og Rithöfundasamband Íslands auglýsa til umsóknar dvalarstyrki til þýðenda íslenskra bókmennta fyrir árið 2013. Veittir eru styrkir til tveggja til fjögra vikna dvalar í gestaíbúðinni í Gunnarshúsi í Reykjavík árið 2013. Auk ferðakostnaðar og húsnæðis er styrkurinn að upphæð IKR. 20.000.-. á viku. Umsóknir, þar sem fram kemur hvaða verk umsækjandi hefur þýtt/ætlar að þýða úr íslensku, og hvaða tíma er óskað eftir til dvalar, skal senda í síðasta lagi 15. október 2012 til Bókmenntasjóðs, Austurstræti 18, 101 Reykjavík. Úthlutun verður tilkynnt eigi síðar en 15. nóvember 2012.
|
|
7.9.2012 16:42:22
Elena Poniatowska, höfundur bókarinnar Jesúsa: óskammfeilin, þverúðug og
skuldlaus, sem er komin úr á íslensku í þýðingu Maríu Ránar
Guðjónsdóttur, er stödd á Íslandi. Mánudaginn 10. september kl.
20 verður haldið höfundarkvöld til heiðurs Poniatowsku í Iðnó. Þar
verður bókin rædd, lesið upp úr henni og Poniatowska ávarpar salinn |
|
6.9.2012 20:34:15
Valland er gefið út hálfsmánaðarlega og fjallar um norræn fræði, einkum
þýðingar úr Íslendingasögum á frönsku. Í Valland-hópnum eru fræðimenn á háskólastigi, m.a. tveir franskir doktorsnemar við Háskóla
Íslands og tveir íslenskir prófessorar. Í þessu eintaki er m.a.
auglýsing um Snorrastyrk fyrir fræðimann/og eða þýðenda úr
miðaldabókmenntum en einnig auglýsing um vinnustofuna (workshop) "Old
Norse Mythology in the Digital Age" í Árósum 19.-20.10. 2012. |
|