Þú ert hér > Thot.is > Fréttir

Fréttir

13.6.2012 20:11:14
Opnað fyrir aðgang að spænsk-íslenskri orðabók

6.6.2007

Eins og kunnugt er hefur nú um skeið staðið yfir vinna að nýrri spænsk-íslenskri og íslensk-spænskri orðabók en því verki stýrir Guðrún H. Tulinius þýðingafræðingur. Verkið er komið vel á veg og nú fyrir skemmstu var opnað fyrir ókeypis aðgang að spænsk-íslenska hluta orðabókarinnar. Þau sem vilja nýta sér þjónustuna geta komist inn á orðabókina í gegnum vefslóðirnar vefbaekur.is/espanol eða edda.is/vefbaekur.

13.6.2012 20:09:38
Norræn orðabókaráðstefna á Akureyri

25.5.2007

Þessa dagana fer fram norræn ráðstefna um orðabækur á Akureyri á vegum NFL, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Norsk språkråd. Ráðstefnur sem þessi eru haldnar annað hvert ár og er þetta í annað sinn sem Íslendingar eru gestgjafar. Að þessu sinni verða haldin um 40 erindi á ráðstefnunni og dagskráin er fjölbreytt. Þarna gefst orðabókafólki gott tækifæri til að koma rannsóknum sínum á framfæri. Ráðstefnunni lýkur á morgun, 26. maí.

13.6.2012 20:07:31
Hæstiréttur dæmir þýðanda bætur

25.5.2007

Áðan greindi Ríkisútvarpið frá því að þýðanda bandarísku sjónvarpsþáttanna Friends hefðu verið dæmdar bætur í Hæstarétti. Þar með sneri rétturinn við dómi héraðsdóms.

Samkvæmt dómnum var brotið á höfundarrétti mannsins þegar fyrirtæki Árna Samúelssonar dreifði þáttunum á mynddiskum hér á landi án heimildar hans, en þýðandinn stefndi Árna persónulega. Árni var dæmdur til að greiða þýðandanum eina milljón króna í bætur, auk málskostnaðar fyrir þýðandann. Við hjá BÞT óskum þýðandanum til hamingju með þessa niðurstöðu sem gæti haft gildi fyrir samfélag þýðenda.

13.6.2012 20:05:39
Ólöf Pétursdóttir þýðandi hjá ritlistarhóp Kópavogs

27.4.2007

Ritlistarhópur Kópavogs heldur vorblót í ljóðum á þremur tungumálum laugardaginn 28. apríl 2007 kl. 15 í skosku kránni við Lækjargötu (Highlander). Heiðursgestir: Bernez Tangi, Gaël Morin, Yann Le Rousic skáld frá Bretaníu.

13.6.2012 20:03:47
Aðalfundur BÞT á mánudag

27.4.2007

Aðalfundur Bandalags þýðenda og túlka verður haldinn í Skólabæ við Suðurgötu mánudaginn 30. apríl nk. kl 16. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf auk umræðna um útvíkkun starfsins og væri vel þegið að félagar kæmu með hugmyndir.

13.6.2012 19:55:37
Rúnar Helgi hlýtur þýðingarverðlaun Menntaráðs Reykjavíkur

23.4.2007

Miðvikudaginn 18. apríl sl. var tilkynnt við hátíðlega athöfn í Höfða að Rúnar Helgi Vignisson hlyti þýðingarverðlaun Menntaráðs Reykjavíkurborgar fyrir bestu þýddu barnabókina árið 2006. Um er að ræða bókina Sólvæng eftir Kanadamanninn Kenneth Oppel sem Græna húsið gaf út. Í umsögn dómnefndar, sem Guðrún Pálína Ólafsdóttir var í forsvari fyrir, segir meðal annars: ,,Sagan er ákaflega vel þýdd af Rúnari Helga Vignissyni, en lipur þýðingin ásamt afburða söguþræði heldur lesandanum límdum við bókina frá upphafi til enda."

13.6.2012 19:51:55
Þessi fimm koma til greina...

12.4.2007

Jæja, þá hafa tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunanna verið birtar. Þau sem keppa um verðlaunin að þessu sinni eru bæði þekktir og lítt þekktir þýðendur: Kristian Guttesen er tilnefndur fyrir Brekkuna eftir Carl Frode Tiller, Fríða Björk Ingvarsdóttir er tilnefnd fyrir Dætur hússins eftir Michéle Roberts, Atli Magnússon fyrir Nostromo eftir Joseph Conrad, feðgarnir Ástráður og Eysteinn Þorvaldsson fyrir Umskiptin eftir Franz Kafka og Silja Aðalsteinsdóttir fyrir Wuthering Heights eftir Emily Brontë.

13.6.2012 19:49:21
Síðustu forvöð að kjósa

30.3.2007

Nú eru síðustu forvöð fyrir félagsmenn í Bandalagi þýðenda og túlka að senda inn atkvæði sitt í kosningu til Íslensku þýðingaverðlaunanna. Við hvetjum félagsmenn eindregið til þess að láta sína skoðun í ljós og stuðla þannig að því að festa þetta fyrirkomulag í sessi. Laugardagurinn 31. mars er síðasti dagur kosningarinnar. Tilnefningar verða svo kynntar fljótlega.

13.6.2012 19:47:04
„Þetta var ekki bara draumur“

0.3.2007

Ástráður Eysteinsson fjallar um þýðinguna á Umskiptunum

Ástráður Eysteinsson, prófessor og þýðandi, er næstur í fyrirlestraröð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur um þýðingar öndvegisverka. Á mánudaginn kl. 16:30 flytur hann fyrirlestur sem hann kallar „Þetta var ekki bara draumur", vandinn að skilja og þýða Umskiptin. Hér er að sjálfsögðu átt við hið fræga verk Franz Kafka, Die Verwandlung, sem áður hefur komið út í þýðingu Hannesar Péturssonar skálds undir heitinu Hamskiptin. Fyrirlesturinn fer fram í Aðalbyggingu Háskóla Íslands, stofu 111.

13.6.2012 19:44:44
Sigurður A. fjallar um Ódysseif

19.3.2007

Fimmtudaginn 22. mars kl. 16:30 flytur Siguður A. Magnússon, rithöfundur og þýðandi, fyrirlestur í fyrirlestraröðinni um þýðingar öndvegisverka sem Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur hefur staðið fyrir í vetur. Erindið fjallar að hluta til um þýðingar Sigurðar á þremur öndvegisverkum eftir James Joyce, Í Dyflinni, Æskumynd listamannsins og Ódysseifi (Ulysses), en megininntak þess er baráttan við að snúa Ulysses á læsilega íslensku. Þetta mikla verk hefur verið kallað fjölþættasta og fyndnasta skáldverk síðustu aldar, enda hefur ekkert verk heimsbókmenntanna hlotið eins víðtæka umfjöllun.



<<Fyrri      Næsta>>


Til baka




Bandalag þýðenda og túlka | [email protected]