13.6.2012 19:42:18
16.3.2007
Málþing um orðabækur í safnaðarheimili Neskirkju
Tímaritið Orð og tunga hefur verið gefið út á Orðabók Háskólans um árabil en með sameiningu stofnana á síðasta ári færðist útgáfan í hendur Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Fyrir nokkrum árum var tekinn upp sá háttur að efna til málþings um tiltekið efni á sviði orðfræði eða orðabókafræði með það í huga að fyrirlesarar á málþinginu myndu síðan gera umræðuefni sínu nánari skil í fræðilegri grein í tímaritinu. Hvert hefti Orðs og tungu hefur þannig að geyma samstæðan þemahluta.
|
|
13.6.2012 19:40:10
15.3.2007
Í dag hefst kosning til Íslensku þýðingaverðlaunanna meðal félagsmanna í Bandalagi þýðenda og túlka. Kosningin fer nú fram á netinu í fyrsta skipti. Hver félagsmaður fær senda slóð á kosningasíðu ásamt aðgangs- og lykilorði. Þegar hann hefur skráð sig inn á kosningasíðuna slær hann inn nafn bókar, höfundar og þýðanda sem hann vill tilnefna til verðlaunanna. Þær fimm bækur sem fá flest atkvæði hljóta tilnefningu. Til greina koma skáldverk fyrir fullorðna sem komu út á árinu 2006. Kosningin stendur yfir frá 15. mars til 31. mars. Félagsmenn eru hvattir til þess að kjósa og taka þátt í að heiðra einn af kollegum sínum. Verðlaunin verða síðan afhent á Gljúfrasteini á degi bókarinnar, 23. apríl.
|
|
13.6.2012 19:38:30
12.3.2007
Fyrsti vísir að orðabók á Íslandi var baskneskt-íslenskt orðasafn sem fæddist af samskiptum Íslendinga og baskneskra sjómanna á Vestfjörðum síðla 16. aldar og fram á þá 17. Síðan þá hafa samskipti við Spán farið sívaxandi og nú er Spánn það land sem flestir Íslendingar sækja heim. Að sama skapi hefur Rómanska Ameríka laðað unnendur spænskrar tungu til sín og hefur vægi spænsku sem viðskiptamáls aldrei verið meira. Hefur það leitt til þess að spænskunemum hefur fjölgað þannig að flestir framhaldsskólar landsins bjóða upp á spænsku sem þriðja mál. Þar af leiðandi hefur skortur á nútímalegri spænsk-íslenskri orðabók aldrei verið jafn aðkallandi.
|
|
13.6.2012 19:33:32
6.3.2007
Rúnar Helgi Vignisson talar um öndvegisþýðingar
Fyrirlestraröðin Öndvegisþýðingar heldur áfram á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur. Fimmtudaginn 8. mars kl. 16:30 heldur Rúnar Helgi Vignisson, rithöfundur og þýðandi, fyrirlestur um þýðingar sínar á verkum suður-afríska Nóbelsverðlaunahöfundarins J.M. Coetzee. Þar mun hann ræða um glímuna við bókmenntaverk frá fjarlægum og framandi menningarheimi. Hann veltir fyrir sér sambandi íslenskrar menningar við framandi menningu og þeim gildrum sem framandleikinn getur lagt fyrir þýðandann. Í leiðinni reynir hann að skilgreina kröfurnar sem gerðar eru til þýðingar hérlendis og forsendurnar sem þar eru lagðar til grundvallar.
|
|
13.6.2012 19:30:32
4.3.2007
Nú styttist í að opnað verði fyrir kosningu til Íslensku þýðingaverðlaunanna. Eins og kunnugt er hafa félagsmenn notið þeirrar ábyrgðar og ánægju að tilnefna verk til verðlaunanna. Þriggja manna dómnefnd tekur síðan við og velur úr tilnefndum verkum og forseti Íslands afhendir svo verðlaunin á Gljúfrasteini 23. apríl. Meiningin er að kjósa í gegnum heimasíðuna að þessu sinni og verður opnað fyrir kosninguna um miðjan mánuðinn. Henni lýkur svo um mánaðamótin næstu.
|
|
13.6.2012 19:10:47
19.2.2007
Auden hefði orðið 100 ára 21. febrúar
Í tilefni af hundraðasta fæðingardegi breska ljóðskáldsins og Íslandsvinarins W. H. Audens stendur Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, tímarit þýðenda, Jón á Bægisá, ásamt breska sendiráðinu að dagskrá í minningu þessa heimskunna skálds sem kom hingað tvisvar, ritaði ferðalýsingu ásamt félaga sínum Louis MacNeice og bergði drjúgt af skáldamiði fornnorrænnar arfleifðar og bar nafnið Auðun með stolti.
|
|
13.6.2012 19:06:41
4.2.2007
Í tilefni þess að 40 ár eru liðin frá útgáfu bókarinnar Hundrað ára einsemd eftir Gabriel García Márquez mun Guðbergur Bergson flytja fyrirlesturinn ,,Að hverju leitar þýðandinn?". Í fyrirlestrinum mun Guðbergur leitast við að skilgreina hvað það er sem þýðandi verður að finna til þes að geta þýtt sómasamlega. Einnig mun Guðbergur lýsa því hvernig hann kemst að kjarna verks í textanum um leið og hann leitar að hliðstæðu hans innra með sjálfum sér.
|
|
13.6.2012 19:03:20
1.2.2007
Menntamálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um Bókmenntasjóð.
Það felur í sér að steypt er saman í einn þremur sjóðum, Bókmenntakynningarsjóði, Menningarsjóði og Þýðingarsjóði. Undir lögin
fellur svo einnig Bókasafnssjóður höfunda sem þó verður með sér stjórn. Í lögunum um Bókasafnssjóðin er nýtt ákvæði sem kveður á um að úthlutun vegna erlendra bóka sem þýddar eru á íslensku skiptist á milli þýðanda og frumhöfundar. Þýðandi fær greidda tvo þriðju
og frumhöfundur einn þriðja miðað við fulla úthlutun. Til þessa hefur þýðandi einungis fengið einn þriðja af fullri úthlutun. |
|
13.6.2012 18:59:08
29.1.2007
Íslensku þýðingarverðlaunin verða afhent í þriðja sinn á degi bókarinnar, 23. apríl nk. Sem fyrr verður sá háttur hafður á að félagar í Bandalagi þýðenda og túlka tilnefna fimm verk til verðlaunanna og er stefnt að því að atkvæðagreiðslu verði lokið eigi síðar en 1. apríl. Þriggja manna dómnefnd undir formennsku Rúnars Helga Vignissonar, verðlaunahafa síðasta árs, tekur síðan við og velur verðlaunaverkið.
|
|
13.6.2012 18:57:05
18.1.2007
Ritþing hafa verið haldin í Gerðubergi frá árinu 1999 og hafa skipað sér fastan sess í menningarlífi borgarinnar. Þeim er ætlað að veita persónulega innsýn í líf og feril íslenskra rithöfunda. Að þessu sinni mun rithöfundurinn og þýðandinn Ingibjörg Haraldsdóttir sitja fyrir svörum hjá þeim Silju Aðalsteinsdóttur, stjórnanda þingsins, og spyrlunum Áslaugu Agnarsdóttur og Jóni Karli Helgasyni sem öll hafa stundað bókmenntarannsóknir og þýðingar. Upplesari er Guðmundur Ólafsson leikari og tónlistaratriði eru í höndum Jóhönnu V. Þórhallsdóttur söngkonu, Aðalheiðar Þorsteinsdóttur píanóleikara og Gunnars Hrafnssonar bassaleikara.
|
|