29.4.2015 01:07:23
Málþing um þýðingarýni laugardaginn 2. maí nk. í Lögbergi, st. 101, frá kl. 10-16
Meistaranemar
í þýðingafræði stíga á stokk á laugardaginn til að rýna í hvernig aðrir
þýðendur þýða bækur sínar og kennir þar margra og forvitnilegra grasa.
Fátt segir jafn mikið um ríkjandi bókmenntasmekk og hugmyndafræði en
hvernig þýðendur þýða á hverjum tíma. Og það er einn stærsti
misskilningur sögunnar að þeir fari alltaf eins að og þýði sama
„frumtextann“ með sama hætti.
Að afloknu málþinginu fer fram kynning á nýrri þýðingu á verkum
skáldsins Guttorms J. Guttormssonar, eins fremsta skálds á Nýja-Íslandi í
Kanada, en nú hafa tíu leikrit hans verið þýdd á ensku og gefin út
ásamt frumtextunum á íslensku.
|
|
23.4.2015 18:19:47
Í dag, 23. apríl 2015, voru Íslensku þýðingaverðlaunin afhent í ellefta
sinn við hátíðlega athöfn á Gljúfrasteini. Forseti Íslands afhenti
verðlaunin en þau hlaut Gyrðir Elíasson fyrir Listin að vera einn,
þýðingu á ljóðum japanska skáldsins Shuntaro Tanikawa. Gyrðir hefur
áður hlotið Íslensku þýðingaverðlaunin en þau fékk hann árið 2012 fyrir
annað ljóðasafn, Tunglið braust inn í húsið.
|
|
23.4.2015 14:36:40
Vika bókarinnar hófst 22. apríl með því að reykvísk fræðsluyfirvöld
veittu barnabókaverðlaun sín fyrir árið 2015. Besta þýdda barnabókin var
valin Eleanor og Park eftir bandaríska rithöfundinn Rainbow Rowell í
þýðingu Birgittu Elínar Hassel og Mörtu Hlínar Magnadóttur en besta
frumsamda barnabókin var Hafnfirðingabrandarinn eftir Bryndísi
Björgvinsdóttur. Verðlaunin voru afhent í Höfða og voru nú veitt í 34.
sinn.
|
|
9.4.2015 18:51:49
Bandalag þýðenda og túlka óskar Guðna Kolbeinssyni, þýðanda og rithöfundi, hjartanlega til hamingju en í dag hlaut hann bókmenntaverðlaun IBBY á Íslandi, Sögustein. Verðlaunin eru 500.000 krónur, auk verðlaunagrips til eignar, en þau eru veitt rithöfundi, myndlistarmanni eða þýðanda sem með höfundarverki sínu hefur auðgað íslenskar barnabókmenntir.
|
|
16.3.2015 15:15:30
Bandalag þýðenda og túlka efnir til tveggja upplestrarkvölda til að rifja upp fyrir áhugasömum bókmenntaunnendum þær fimm framúrskarandi þýðingar sem eru tilnefndar til Íslensku þýðingaverðlaunanna 2015. Auk upplestra gefst áheyrendum tækifæri til að spjalla við þýðendur um tilnefndu verkin, þýðinguna sjálfa og þýðendastarfið.
Upplestrarnir verða haldnir í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, fimmtudagana 19. og 26. mars og hefjast kl. 20. Aðgangseyrir er enginn og allir eru hjartanlega velkomnir.
|
|
16.2.2015 12:33:42
Stjórn Bandalags þýðenda og túlka furðar sig á ummælum umhverfisráðherra
í Fréttablaðinu 16. febrúar, að nota eigi „mildara orðalag við þýðingu
Evróputilskipana“ og yfirlýstar efasemdir ráðherra um að ekki séu tekin
inn „réttu íslensku orðin [...] oft og tíðum“. Með þessum ummælum er
vegið að heiðri og fagmennsku þeirra þýðenda sem starfa fyrir
Þýðingamiðstöð Utanríkisráðuneytisins, jafnt fastráðinna starfsmanna sem
verktaka. |
|
1.12.2014 20:30:04
Í dag, 1. desember, var tilkynnt á Kjarvalsstöðum hverjir hlutu tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunanna árið 2014. Tilnefningar hlutu Gyrðir Elíasson fyrir Listin að vera einn eftir Shuntaro Tanikawa, útg. Dimma; Silja Aðalsteinsdóttir fyrir Lífið að leysa eftir Alice Munro, útg. Mál og menning; Jón St. Kristjánsson fyrir Náðarstund eftir Hannah Kent, útg. JPV; Hermann Stefánsson fyrir Uppfinning Morels eftir Adolfo Bioy Casares, útg. Kind (1005 Tímaritaröð); og Herdís Hreiðarsdóttir fyrir Út í vitann eftir Virginia Woolf, útg. Ugla. Einnig var tilkynnt um tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir barnabækur, fræðibækur og bækur almenns eðlis og fagurbókmenntir (sjá aftar).
|
|
25.11.2014 15:11:31
Árlegt þýðingahlaðborð Bandalags þýðenda og túlka verður haldið í
Borgarbókasafninu við Tryggvagötu laugardaginn 29. nóvember kl. 15. Lesið verður upp úr nýjum barna- og unglingabókum.
|
|
23.11.2014 20:57:19
Ísnálin (The Icepick), Iceland Noir verðlaunin fyrir bestu þýddu
glæpasöguna á Íslandi 2014, voru veitt í fyrsta sinn í kvöldverðarveislu
glæpasagnahátíðarinnar í gær. 22. nóvember. Ísnálina hlutu Friðrik
Rafnsson þýðandi og Joël Dicker fyrir bókina Sannleikurinn um mál Harrys
Quebert (La Vérité sur l’affaire Harry Quebert). Friðrik Rafnsson er
íslenskum lesendum að góðu kunnur fyrir fjölmargar þýðingar sínar og var
tilnefndur til Íslensku þýðingaverðlaunanna átið 2008 fyrir þýðingu
sína Brandarinn eftir Milan Kundera.
|
|
11.11.2014 12:55:40
Í ár hefur Miðstöð íslenskra bókmennta úthlutað 80 styrkjum til þýðinga
íslenskra verka á 28 tungumál. Himnaríki og helvíti, LoveStar,
Mánasteinn og Skaparinn meðal verka sem verða þýdd. Styrkupphæðin í ár
nemur 19 milljónum króna.
Síðustu styrkjum ársins 2014 til þýðinga íslenskra verka á erlend mál hefur nú verið úthlutað frá Miðstöð íslenskra bókmennta.
|
|