Þú ert hér > Thot.is > Fréttir

Fréttir

13.6.2012 18:50:14
Fróðleiksnáma um þýðingar

6.1.2007

Nýlega kom út bókin Translation - Theory and Practice: A Historical Reader. Hér er um að ræða viðamikið sögulegt safnrit á sviði þýðinga og þýðingafræði í ritstjórn Ástráðs Eysteinssonar prófessors og Daniels Weissborts, prófessors emeritus við University of Iowa. Það er hið virta forlag Oxford University Press sem gefur bókina út, en hún er 649 bls., gefin út bæði innbundin og í kilju.

Ritið spannar vítt svið; raktar eru slóðir frá fornum Biblíuþýðingum, og þýðingum í Rómaveldi, allt til okkar daga. Í bókinni er mikið safn texta í 62 köflum, jafnt kunn lykilverk í þýðingaumræðunni sem síður þekktar en mikilvægar umsagnir þýðenda, skálda og fræðimanna um þessa iðju sem er einn af meginþráum menningarsögunnar.

13.6.2012 16:43:09
Jón á Bægisá heldur sínu striki

22.12.2006

Jón á Bægisá, tímarit þýðenda, er komið út, stútfullt af þýðingum og greinum. Kristjana Gunnars ritar grein sem nefnist "Að þýða undirtyllur", Jón Atli Bjarnason er með stórfróðlega grein um Poestion, þann sem þýddi mikið af íslenskri ljóðlist á þýsku á fyrri hluta 20. aldar, einnig birtast þarna síðustu greinar Franz heitins Gíslasonar, ein mjög skemmtileg um "hringþýðingar" þar sem forsætisráðherrann fyrrverandi kemur við sögu og önnur um þýðingastarf hans á erlend mál. Sams konar grein er í heftinu eftir Sigurð A. Magnússon þannig að segja má að heftið sé að miklu leyti tengt útrás íslenskra bókmennta sem á sér langa sögu. Enn fremur eru í heftinu ljóð og sögur af ýmsu tagi.

13.6.2012 16:36:14
Jólaþýðingar

4.12.2006

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur heldur merki þýðinga á loft þessi misserin. Hún gengst fyrir fyrirlestraröð um öndvegisþýðingar, eins fram hefur komið, og nú hefur hún tilkynnt sérstaka jólafyrirlestra þar sem lesendum verður gert kleift að skyggnast inn í heim þýðandans og hlýða á þýðendur skýra frá vinnu sinni og glímunni við verkin, svipað og var á Þýðingahlaðborðinu.

Þau sem stíga á stokk eru Silja Aðalsteinsdóttir, Árni Bergmann, Áslaug Agnarsdóttir og Þórarinn Kristjánsson, Ólöf Eldjárn, Guðni Kolbeinsson og Guðlaugur Bergmundsson. Þau kynna verk eftir ólíka höfunda, bæða lifandi og liðna eins og sjá má í frétt frá stofnuninni sem hér fer á eftir.

13.6.2012 16:28:44
Öndvegisþýðingar

30.11.2006

Vert er að vekja hér athygli á fyrirlestraröð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur um öndvegisþýðingar. Í gær ræddi Friðrik Rafnsson um þýðingu sína á Óbærilegum léttleika tilverunnar eftir Milan Kundera en um þessar mundir eru tuttugu ár síðan hún kom út. Bókin hefur notið mikilla vinsælda, sem varla telst lakara fyrir þýðanda, enda kveður þar við nýjan tón sem Friðrik sagði að væri samspil fyndni, erótíkur og heimspeki.

Friðrik sagðist í upphafi vera búinn að gleyma helstu vandamálum sem upp komu við þýðingu bókarinnar og lái honum hver sem vill eftir tvo áratugi. Honum tókst þó að grafa upp nokkur áhugaverð atriði. Það var t.d. titillinn sem er jú einkar skemmtilegur og lifir góðu lífi meðal þjóðarinnar.

13.6.2012 16:27:47
Titlar mikið ræddir á Þýðingahlaðborðinu

19.11.2006

Þýðingahlaðborðið í gær var afar vel heppnað þó að næðið hefði reyndar mátt vera betra á Kaffi Óliver. En samkoman var vel sótt og þýðendurnir sem fram komu voru mjög vel undirbúnir. Allir ræddu þeir um bækurnar og þýðingarvinnuna og var það mjög gefandi umræða enda sjónarhorn þýðenda á verkin sem þeir þýða einstakt.

Titlar urðu nokkurs konar leiðarhnoða á hlaðborðinu því þrír af þýðendunum ræddu sérstaklega um titlana sem þeir völdu á þýðingar sínar en þeir eru jú iðulega afar erfiðir viðureignar.

13.6.2012 16:26:43
Þýðingahlaðborð

17.11.2006

Bandalag þýðenda og túlka heldur sitt árlega Þýðingahlaðborð laugardaginn 18. nóvember kl. 16 -18 á Kaffi Oliver, Laugavegi 20b. Það er nú haldið í þriðja  sinn og hafa menn fengið að njóta lestra úr bókum sem sjaldnast er færi á að heyra lesið úr. Einnig hefur ávallt verið fróðlegt að heyra það sem þýðendur hafa að segja um verk sín og aðferðir og gefst að venju tækifæri til að kíkja ofan í þær verkfærakistur. Þau sem lesa að þessu sinni eru:

13.6.2012 16:25:03
Velkomin á heimasíðu Bandalags þýðenda og túlka

17.11.2006

Ávarp Gauta Kristmannssonar formanns

Bandalag þýðenda og túlka hefur starfað í rúm tvö ár þegar þessi vefur er opnaður, en það var stofnað á alþjóðlegum degi þýðenda, 30. sept. 2004 með hátíðlegri athöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands. Bandalagið hefur það að markmiði að auka veg og virðingu þýðenda og túlka í þjóðfélaginu, en þeir starfa nú á æ fleiri sviðum þess og tryggja sem snurðulausast samband okkar við umheiminn innan lands sem utan. Félagar geta orðið þeir sem starfa að þýðingum og túlkun í þeim félögum sem tilgreind eru í lögunum og reyndar voru tvö félög stofnuð um sama leyti Bandalagið, Félag túlka og Félag atvinnuþýðenda, með það fyrir augum að geta verið undir regnhlíf Bandalagsins. Önnur félög sem aðild eiga að Bandalaginu eru Félag löggiltra dómtúlka og skjalaþýðenda, Rithöfundasamband Íslands, Blaðamannafélag Íslands, Esperantosambandið, Félag háskólamenntaðra táknmálstúlka, Hagþenkir, Félag þýðenda á Stöð 2 og Félag Sjónvarpsþýðenda.



<<Fyrri      Næsta>>


Til baka




Bandalag þýðenda og túlka | [email protected]