Þú ert hér > Thot.is > Fréttir

Fréttir

28.5.2013 15:06:23
Minnt á aðalfund

Stjórn Bandalags þýðenda og túlka minnir á aðalfundinn sem verður haldinn í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, á morgun, miðvikudagskvöldið 29. maí, kl. 20:00. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf, kosning nýrrar stjórnar, skýrsla formanns og almennar umræður um þýðingastarfið. Einnig verður skipaður nýr heiðursfélagi.

12.5.2013 14:44:13
Aðalfundur Bandalags þýðenda og túlka

Aðalfundur Bandalags þýðenda og túlka verður haldinn í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambands Íslands að Dyngjuvegi 8, miðvikudaginn 29. maí  kl. 20. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf en einnig verður kynntur nýr heiðursfélagi Bandalags þýðenda og túlka. Nokkrir stjórnarmenn hafa ákveðið að hætta og að þessu sinni verða kosnir formaður og tveir stjórnarmenn.

25.4.2013 11:25:25
27 nýjar þýðingar kynntar á London Book Fair 2013

Miðstöð íslenskra bókmennta tók þátt í bókamessunni í London sem haldin var dagana 15. - 17. apríl síðastliðinn. Þar var meðal annars kynntur nýr bæklingur sem Miðstöð íslenskra bókmennta hefur tekið saman um nýjustu útgáfur á íslenskum verkum í enskum þýðingum, samtals 27 titlar. Síðastliðin 4 ár hefur Íslandsstofa haldið utan um íslenskan sýningarbás á bókamessunni í London. Í ár var hinsvegar í fyrsta skipti settur upp samnorrænn sýningarbás en þar komu saman norrænu bókmenntakynningarstofurnar sem og norrænir bókaútgefendur og umboðsmenn.

23.4.2013 19:45:37
Kristín Guðrún Jónsdóttir hlýtur Íslensku þýðingarverðlaunin 2013

Íslensku þýðingaverðlaunin 2013 voru veitt við hátíðlega athöfn á Gljúfrasteini á Degi bókarinnar, þriðjudaginn 23. apríl. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, veitti verðlaunin sem í þetta sinn féllu í hlut Kristínar Guðrúnar Jónsdóttur fyrir þýðingu hennar á "Svarti sauðurinn og aðrar fabúlur" eftir Augusto Monterroso (útg. Bjartur). Bandalag þýðenda og túlka óskar Kristínu Guðrúnu hjartanlega til hamingju.

20.4.2013 14:41:59
Íslensku þýðingaverðlaunin 2013

Bandalag þýðenda og túlka veitir Íslensku þýðingaverðlaunin 2013 við hátíðlega athöfn á Gljúfrasteini á Degi bókarinnar, þriðjudaginn 23. apríl kl. 16. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhendir verðlaunin. Athöfnin er öllum opin og verður boðið upp á léttar veitingar.

17.4.2013 17:33:15
Umsóknarfrestur í ráðstefnutúlkun framlengdur

Haustið 2013 verður boðið upp á tveggja ára meistaranám í ráðstefnutúlkun við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Ráðstefnutúlkar starfa við túlkun á ráðstefnum og fundum um víða veröld.
Frestur til að sækja um námið hefur verið framlengdur til 29. apríl. Nánari upplýsingar um námið má finna í kennsluskrá Hugvísindasviðs Háskóla Íslands.

4.4.2013 19:32:53
Fyrirlestur um náttúrumyndir í verkum kanadískra skáldkvenna

María Antonia Mezquita Fernández frá háskólanum í Valladolid á Spáni heldur fyrirlestur á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum þriðjudaginn 9. apríl kl. 12 í stofu 106 í Odda í Háskóla Íslands.

4.3.2013 17:14:11
Fyrirlestur um ljóðaþýðingar úr íslensku á japönsku

Nobuyoshi Mori, prófessor við Tokaiháskóla í Japan, flytur fyrirlestur á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, fimmtudaginn 7. mars í stofu 101 í Odda, kl. 16. Fyrirlesturinn ber  yfirskriftina „Vandinn að þýða íslensk ljóð á japönsku“. Prófessor Mori hefur þýtt Kormákssögu og Hallfreðarsögu á japönsku og nýlega lauk hann við þýðingar á ljóðum nokkurra samtímaskálda. Í erindinu fjallar hann um mismun tungumálanna og mismundandi ljóðhefðir og þann vanda sem er við að fást þegar snúa á ljóðum úr íslensku á japönsku.

20.2.2013 17:49:22
Yfir saltan mar

Bókin Yfir saltan mar er komin út hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Háskólaútgáfunni. Bókin kemur út í tvímála ritröð stofnunarinnar og í henni er að finna safn þýðinga á ljóðum argentínska ljóðskáldsins, rithöfundarins og Íslandsvinarins Jorge Luis Borges. Þýðingarnar hafa áður birst í blöðum og tímaritum og er þetta í fyrsta sinn sem þær eru teknar saman og gefnar út í heild sinni.

20.2.2013 17:39:29
Mál og Movement á Alþjóðlega móðurmálsdeginum

Fimmtudaginn 21. febrúar kl. 17.30-18.30 verður Alþjóðlega móðurmálsdeginum fagnað í aðalsafni Borgarbókasafns, Tryggvagötu 15, með fjölbreyttri dagskrá. Dagskráin er unnin í samstarfi við félagið Víðsýni. Alþjóðlega móðurmálsdeginum verður einnig fagnað í Gerðubergi laugardaginn 23. febrúar með yfirskriftinni Okkar mál.



<<Fyrri      Næsta>>


Til baka




Bandalag þýðenda og túlka | [email protected]