Þú ert hér > Thot.is > Íslensku þýðingaverðlaunin

Íslensku þýðingaverðlaunin

18.2.2017 17:13:53
Þýðingaverðlaunaþakkarræða

Hallgrímur Helgason hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin 2017 fyrir þýðingu sína á Óþelló eftie William Shakespeare. Eftir afhendingu verðlaunanna í Hannesarholti 15. febrúar hélt hann ræðu sem birt er hér. Þar segir hann m.a.:
"Fyrir okkur sem trúum frekar á bókmenntir en guð er þessi alheimsandi sjálfur skáldskaparguðinn og verk hans hið eina sanna guðspjall. Því ólíkt Biblíunni virðist Shakespeare eiga svör við öllu, og ólíkt kirkjunni er alltaf gaman í messu hjá honum. Vatikan þessara skemmtilegu trúarbragða stendur svo á bökkum Thames-ár og heitir The Globe Theatre. Þar hef ég staðið í sól og regni, eins og sannur pílagrímur og alltaf komið heim með nýjan sannleik, nýjar línur, innblásinn, ánægður, en líka voða þreyttur í fótunum." 

28.5.2016 14:14:05
Ræða Brynju Cortes Andrésdóttur

23. apríl 2016 tók Brynja Cortes Andrésdóttir við Íslensku þýðingaverðlaununum í Hannesarholti (sjá hér). Af því tilefni hélt hún þessa ræðu:

Herra forseti, ágætu gestir

Það er mér sannur heiður að taka við þessum verðlaunum hér í dag.
Ég áttaði mig ekki fyllilega á því hve mikill heiður þessu fylgir fyrr en ég sá hverjir aðrir voru tilnefndir til verðlaunanna í ár. Ég þakka kærlega fyrir mig.

Þýðingin sem hér er verðlaunuð ber hinn undarlega titil Ef að vetrarnóttu ferðalangur og fjallar um ferð lesandans um fjölbreytilegt landslag skáldskaparins. Þetta ferðalag lesandans er alltaf óvissuför, hann hættir sér ítrekað inn á ný og framandi svæði, les fjölbreytta texta, þýðingar frá ólíkum löndum í leit að einhverju sem hann veit ekki hvað er, skáldskapnum sjálfum líklega, sem afhjúpar sig í lestrinum; á ferðalaginu.

Kaflar bókarinnar eru ólíkir innbyrðis og þegar kom að því að þýða þá voru þeir miserfiðir viðureignar. Við fyrstu atrennu virtust sumir þættir bókarinnar raunar algerlega óþýðanlegir, en það voru oft þeir kaflar sem jafnframt var, er á reyndi, skemmtilegast að glíma við.


13.5.2015 22:50:48
Þakkarávarp Gyrðis Elíassonar á Gljúfrasteini

Það eru orðin nokkur ár síðan Nobuyoshi Mori, prófessor í norrænum fræðum við Tokai-háskóla í Tókýó, spurði mig hvort ég hefði velt fyrir mér að þýða ljóð Shuntaro Tanikawa yfir á íslensku. Í sannleika sagt hafði ég ekki leitt hugann að því, var verkum Tanikawa rétt lauslega kunnugur, en hafði kynnt mér önnur japönsk samtímaskáld mun betur. Mori sendi mér síðan bók með enskum þýðingum á ljóðum Tanikawa, og eftir það varð ekki aftur snúið, má segja. Þessi ljóð gripu mig á einhvern sérstakan hátt nær samstundis. Kannski var það þessi hárfína og sérstaka blanda af tóni ættuðum frá Vesturlöndum og úr eldri japanskri ljóðlist sem heillaði mig. Ég nálgaðist fljótlega nær allar þýðingar sem tiltækar voru á ensku af ljóðum hans, og tók að fikra mig í átt til þess að útbúa kver með ljóðum hans á íslensku. Það tók um það bil tvö ár meðfram öðru að ná utan um það verkefni. Millimálið gat auðvitað talist nokkur hindrun, en ég huggaði mig þó við það að Tanikawa lagði blessun sína yfir ensku þýðingarnar, og hafði raunar haft hönd í bagga með þeim flestum.

24.4.2015 10:25:48
Íslensku þýðingaverðlaunin - ávarp formanns

Íslensku þýðingaverðlaunin 2015 voru veitt í ellefta sinn við hátíðlega athöfn á Gljúfrasteini 23. apríl. Forseti Íslands afhenti verðlaunin en þau hlaut Gyrðir Elíasson fyrir Listin að vera einn, þýðingu á ljóðum japanska skáldsins Shuntaro Tanikawa. - Af því tilefni flutti formaður Bandalags þýðenda og túlka þetta ávarp:

24.4.2014 14:47:14
Íslensku þýðingaverðlaunin 2014 - Ávarp Ingunnar

Íslensku þýðingaverðlaunin fyrir þýðingu á erlendu skáldverki voru veitt á Gljúfrasteini 23 apríl við hátíðlega athöfn. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra afhenti verðlaunin en þau hlaut Ingunn Ásdísardóttir fyrir þýðingu sína á færeysku skáldsögunni Ó - Sögur um djöfulskap eftir Carl Jóhan Jensen, sem Uppheimar gáfu út út. - Hér fer á eftir ávarp Ingunnar þegar hún tók við verðlaununum.

27.4.2013 13:53:37
Þakkarávarp Kristínar Guðrúnar Jónsdóttur

Í ávarpinu segir hún m.a.:
"Svarti sauðurinn og aðrar fabúlur er tímalaust verk og á ekki síður erindi til okkar í dag en þegar það kom út í Mexíkó árið 1969. Monterroso hefur með fabúlum sínum endurvakið þetta gamla bókmenntaform, en með nýjum áherslum. Hér er ekki um að ræða hefðbundnar fabúlur eða dæmisögur með siðalærdómi í anda fyrri tíma. Monterroso umturnar eða grefur undan viðteknum siðferðilegum gildum og túlkun á sögunni. Með glettni, háði og tvíræðni að vopni ræðst hann gegn viðtekinni hugsun og varpar fram möguleikum á að endurmeta hefðbundin gildi og skoðanir á ýmsum málum, ekki síst hegðun okkar mannanna og skilning á bókmenntum, og starfi rithöfunda. Hann veitir okkur nýtt sjónarhorn þar sem munur manna og dýra er enginn, og jafnvel hluta eða óáþreifanlegra fyrirbæra. Fabúlur Monterrosos, sem nú á dögum flokkast undir örsögur, bjóða upp á margar túlkanir. Lesandinn veit ekki alltaf hvernig hann á að bregðast við þeim, hann verður dálítið óviss, ef til vill hissa, finnur jafnvel til óþæginda, hann brosir út í annað, finnst hann kannski samsekur eða heldur að hann sé komin í lið með „þeim góðu“, en er þó ekki alveg viss. Hér er fabúluhöfundurinn ekki í dómarasæti, hann beinir orðum sínum ekki síst að sjálfum sér."

23.4.2013 19:49:24
Kristín Guðrún Jónsdóttir hlýtur Íslensku þýðingarverðlaunin 2013

Íslensku þýðingaverðlaunin 2013 voru veitt við hátíðlega athöfn á Gljúfrasteini á Degi bókarinnar, þriðjudaginn 23. apríl. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, veitti verðlaunin sem í þetta sinn féllu í hlut Kristínar Guðrúnar Jónsdóttur fyrir þýðingu hennar á "Svarti sauðurinn og aðrar fabúlur" eftir Augusto Monterroso (útg. Bjartur). Bandalag þýðenda og túlka óskar Kristínu Guðrúnu hjartanlega til hamingju.

17.7.2012 18:00:05
Gyrðir Elíasson hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin 2012

23.4.2012

Gyrðir Elíasson hlýtur Íslensku þýðingaverðlaunin 2012, sem Bandalag þýðenda og túlka veitir, fyrir bókina Tunglið braust inn í húsið. Bókaútgáfan Uppheimar gefur út. Um verðlaunaverkið segir svo í umsögn dómnefndar:"Gyrðir Elíasson fær þýðingarverlaun Bandalags þýðenda og túlka árið 2012 fyrir ljóðasafnið Tunglið braust inn í húsið, útgefandi Uppheimar.Með því að velja þessa bók: Tunglið braust inn í húsið  viljum við verðlauna ljóðlist heimsins, gömul ljóð og nýrri - og það að þeim hafi nú verið beint inn í húsið okkar - okkur gefið tækifæri til að lifa með þeim og njóta."

17.7.2012 17:46:04
Þýðingaverðlaunin 2011

Ávarp formanns, Rúnars Helga Vignissonar, á Gljúfrasteini 30. apríl 2011

Fyrir skömmu hlýddi ég á fyrirlestur þar sem því var haldið fram að 50–90 prósent þeirra 7000 tungumála sem nú eru töluð í heiminum gætu dáið út á næstu 50–100 árum. Í máli fyrirlesarans, Peters Austins, prófessors við Lundúna-háskóla, kom líka fram að 4% mannkyns töluðu 96% þeirra tungumála sem fyrirfinnast í heiminum. Þetta þýðir að töluð eru mörg smá tungumál og það eru einmitt þau sem eru í mestri hættu. Að mati prófessorsins getur afstaða viðkomandi þjóðar til tungumáls skilið milli feigs og ófeigs.

17.7.2012 17:44:34
Erlingur E. Halldórsson hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin

1.5.2011

Erlingur E. Halldórsson hlaut í dag, 30. apríl 2011, Íslensku þýðingaverðlaunin við hátíðlega athöfn á Gljúfrasteini. Verðlaunin hlaut hann fyrir þýðingu sína á Gleðileiknum guðdómlega eftir Dante Alighieri.

Fjórir aðrir þýðendur voru tilnefndir til verðlaunanna að þessu sinni:
Atli Magnússon var tilnefndur fyrir Silas Marner eftir George Eliot
Njörður P. Njarðvík fyrir Vetrarbraut eftir Kjell Espmark
Óskar Árni Óskarsson fyrir Kaffihús tregans eftir Carson McCullers
Þórarinn Eldjárn fyrir Lé konung eftir William Shakespeare.

Sjá frétt RÚV um verðlaunaafhendinguna.
Sjá ávarp Rúnars Helga Vignissonar.




<<Fyrri      Næsta>>


Til baka




Bandalag þýðenda og túlka | [email protected]